Mistök eru til að læra af þeim

Dr. Henry Petroski var með fróðlegan fyrirlestur í Háskóla Íslands í gær í tilefni aldarafmælis skólans. Í fyrirlestrinum sagði Petroski að hægt væri að læra mun meira af mistökum en velgengni.

Tók Petroski, sem er prófessor í byggingarverkfræði og sagnfræði við Duke-háskólann í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum, Titanic-slysið sem dæmi. Sagði hann það afleiðingu hönnunargalla þar sem m.a. voru of fáir björgunarbátar, skilrúm milli lesta ekki þétt og fleira.

Benti Petroski á að hefði Titanic ekki sokkið hefðu eflaust mörg skip verið hönnuð með sömu galla. Mistök eru því ekki síður dýrmæt en velgengni. Íslendingar gætu því lært margt af efnahagshruninu bæði til að forða okkur frá öðru sambærilegu hruni og til þess að byggja upp betra kerfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert