Orðalag vegna Nató mildað

Steingrímur J. Sigfússon og Álfheiður Ingadóttir ræðast við á landsfundi …
Steingrímur J. Sigfússon og Álfheiður Ingadóttir ræðast við á landsfundi VG. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lagt er til, á landsfundi VG, að fagnað verði tillögu sem lögð hefur verið fram á Alþingi um að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Nató. Orðalagið í tillögu málaefnahóps er mun mildara en í upphaflegum ályktunum þar sem lagt var til að áréttuð yrði krafan um að Ísland segði sig úr hernaðarbandalaginu Nató.

Í ályktun sem málefnahópur leggur til segir: „Ísland á að standa utan hernaðarbandalaga, hafna vígvæðingu og tala í hvívetna fyrir friðsamlegum lausnum í deilum. Hið árásargjarna eðli Nató sem hernaðarbandalags má vera flestum ljóst og hefur enn sannast á liðnum árum, s.s. í Afganistan og Líbíu.“

Í ályktuninni, sem kosið verður um í dag, segir einnig að VG hafni heræfingum Nató-herja í íslenskri lögsögu, „enda hafa þær engu jákvæðu hlutverki að gegna. Undir það fellur svokallað „loftrýmiseftirlit“. Flugæfingar þessar eru háskalegar, truflandi, skapa óöryggi og hræðslu og eru ekki samboðnar friðelskandi þjóðum.“


Í ályktun sem upphaflega var lögð fyrir fundinn, af Andrési Rúnari Ingasyni, sagði: „NATO í Líbíu er farið er langt út fyrir nokkrar samþykktir öryggisráðs SÞ og með morði dauðasveita Bandaríkjahers á Bin Laden voru brotin bæði alþjóðalög og lög eigin landa.“

Ályktað sterklega gegn ESB

Í ályktun um aðildarviðræður við ESB er áréttað að flokkurinn telji sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB. Í ályktuninni er m.a. nefnt að „í yfirstandandi aðildarviðræðum beri að hafna því að Ísland afsali sér forræði og yfirstjórn sjávarauðlinda innan íslenskrar efnahagslögsögu,“ og lögð er áhersla á að Íslandi haldi samningsrétti vegna deilistofna á Íslandsmiðum, og hið sama eigi við um umfang á stuðningi við íslenskan landbúnað svo og um náttúruauðlindir sem fyrirhugað sé að lýsa þjóðareign í nýrri stjórnarskrá.

Ennfremur segir: „Landsfundurinn bendir á þá miklu skerðingu lýðræðis sem felst í ESB-aðild ásamt fullveldisafsali á fjölmörgum sviðum. Þróun innan ESB að undanförnu, nú síðast vegna átaka um framtíð evru-samstarfsins, stefnir í átt að enn frekari samruna með hertri miðstýringu. Með Lissabon-sáttmálanum er einnig kominn vísir að samstarfi um utanríkis- og hernaðarmálefni. Jafnframt eiga félagsleg sjónarmið, umhverfisvernd, fæðu- og matvælaöryggi og réttindi launafólks undir högg að sækja innan sambandsins. Þá mun VG tryggja að íslenskt stjórnkerfi verði ekki aðlagað stjórnkerfi ESB á meðan á aðildarviðræðum stendur.“

Í ályktunni segir einnig: „Landsfundurinn telur það vera eitt af forgangsverkefnum VG, flokkseininga og þingflokks, að herða róðurinn við að upplýsa þjóðina um eðli og afleiðingar ESB-aðildar.“

Heilbrigðiskerfið þolir ekki frekari niðurskurð

Í ályktun um heilbrigðiskerfið segir: „Ljóst má vera að heilbrigðiskerfið er löngu komið að þolmörkum þar sem skorið var niður í málaflokknum undir einkavæðingarstefnu fyrri ára. Valdhöfum virðist ekki hafa tekist að endurskipuleggja heilbrigðiskerfið í samræmi við ríkisstjórnarsáttmálann, sem gerir ráð fyrir eflingu heilsugæslunnar og flæðistýringu þannig að fjármagn nýtist sem best til að tryggja heilbrigði þjóðarinnar. Grunnþjónusta sem hefur bein áhrif á líf og dauða fólks hlýtur að teljast forgangsatriði hjá ríkisstjórn félagshyggjuflokka.“

Bent er á að skv. fjárlögum ársins 2010 sé gert ráð fyrir 1,5% niðurskurði í heilbrigðistengdri þjónustu. „Frekari niðurskurður í heilbrigðiskerfinu getur ekki orðið án þess að þjónusta við sjúklinga skerðist alvarlega og heilsuspillandi álag á heilbrigðisstarfsfólk aukist. Vinstri græn álíta að á meðan skattamöguleikar eru ekki fullnýttir sé ómögulegt að réttlæta frekari niðurskurð í velferðarkerfinu.“

Staðgöngumæðrun verði ekki leyfð

Lagt er til á landsfundi VG að staðgöngumæðrun verði ekki heimiluð hér á landi, hvorki í hagnaðarskyni né velgjörðarskyni. Í ályktun, sem kosið verður um í dag, segir m.a.„ Með því að leyfa staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni væri verið að samþykkja þá hugmynd að það sé í lagi að nota líkama annarra sem leið að eigin markmiði. Slíka sýn á manneskjuna getum við ekki og eigum ekki að samþykkja.“

Umræður um ályktanir hefjst um kl. 13.00 eftir hádegishlé. Fundinum lýkur síðdegis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert