Búið er að setja upp tjald á Austurvelli, en þar hafa um 20 mótmælendur komið sér fyrir í kvöld. Mótmælendurnir kenna sig við Occupy Reykjavík, en þeir eru hluti af mótmælahreyfingu sem hófst við Wall Street í New York í síðasta mánuði og hefur síðan breiðst út víða um heim.
Mótmælendur hafa stillt sér upp undir borða sem á stendur „Alvöru lýðræði“. Til mótmælanna var boðað á Fésbók, en þar segir að þau muni standa frá kl. 18-22. Í hópnum eru bæði Íslendingar og útlendingar.
Mótmælendur á Wall Street hafa sagt að þeir séu fulltrúar 99% þjóðarinnar og þeir séu að mótmæla græðgi og ábyrgðarleysi sem fulltrúar 1% þjóðarinnar hafa staðið fyrir í fjármálalífinu. Mótmælin hafa breiðst út til fleiri borga í Bandaríkjunum og til fleiri landa.