Lögregla rannsakar nú umfangsmikinn innflutning á fíkniefnum, en fyrr í þessum mánuði lagði lögregla hald á fíkniefni sem flutt voru til landsins með flutningaskipi sem var að koma frá Hollandi. Tveir hafa verið handteknir vegna málsins.
Þetta kom fram í fréttum Stöðvar tvö í kvöld. Karlmaður á fimmtugsaldri var handtekinn í Leifsstöð í nótt grunaður um aðild að málinu. Annar maðurinn hefur verið handtekinn grunaður um að hafa tekið þátt í innflutningnum.
Í frétt Stöðvar tvö segir að um sé að ræða innflutning á tugum kílóa af fíkniefnum, meðal annars e-pillum, kókaíni, amfetamíni og sterum.
Í fréttatilkynningu frá lögreglu segir: „Karl á fimmtugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 11. nóvember að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna gruns um aðild að innflutningi á umtalsverðu magni af fíkniefnum og sterum. Karl á sextugsaldri er í haldi lögreglu vegna sama máls en sá var handtekinn 10. október og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 8. nóvember. Fíkniefnin og sterararnir sem um ræðir fundust við leit lögreglu og tollgæslu í gámi sem kom til landsins 10. október. Rannsókn málsins hefur staðið yfir í alllangan tíma og hefur verið unnin í samvinnu við tollgæsluna. Yngri maðurinn hefur áður komið við sögu hjá lögreglu. Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.“