Vilja stækka verndarflokk

Steingrímur J. Sigfússon ávarpar landsfund VG.
Steingrímur J. Sigfússon ávarpar landsfund VG. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Landsfundur VG samþykkti ályktun þar sem segir að biðflokkur og verndarflokkur rammaáætlunar verði stækkaðir frá því sem lagt er til í drögum að þingsályktunartillögu sem er nú í umsagnarferli. Í biðflokk fari allar þær virkjanahugmyndir sem nú eru í nýtingarflokki en ekki er sátt um.

Landsfundinum lauk síðdegis. Smugan hefur eftir Guðfríði Lilju Grétarsdóttur formanni umhverfisnefndar Alþingis að enginn afsláttur verði gefinn frá þessari stefnumörkun. ,,Þetta er algerlega skýr og afgerandi yfirlýsing flokksmanna um að  VG  eigi að standa vörð umhverfisstefnu sína og gefa engan afslátt,” segir Guðfríður Lilja.

„Landsfundur fagnar því sérstaklega að dýrmæt svæði eins og t.a.m. Þjórsárver, Torfajökull, Kerlingarfjöll, Gjástykki og fleiri eru nú, samkvæmt tillögu verkefnisstjórnar, flokkuð í verndarflokk. Baráttunni er hins vegar ekki lokið. Í þeim efnum ítrekar landsfundur fyrri samþykktir um að ekki verði farið í virkjanaframkvæmdir í byggð við Þjórsá og að staðinn sé vörður til framtíðar um vernd jökulánna í Skagafirði, Skjálfandafljóts, Skaftár og Hólmsár sem nú er á barmi nýtingar. Brýnt er og að endurskoða stöðu svæða sem alltof lítil umræða hefur verið um, s.s. Stóru Sandvíkur á Reykjanesskaga og virkjun Skrokköldu og Hágöngulón.

Á vettvangi rammaáætlunar skortir á að samfélagsleg áhrif hafi verið greind og rýnd með viðunandi gögnum. Landsfundur hafnar því alfarið að virkjuð verði svæði þar sem viðunandi rannsóknir á svo mikilvægum þáttum liggja ekki fyrir, s.s. áhrifum á náttúru, lífríki, vistkerfi, landslag, menningarminjar, ferðaþjónustu, útivist, mannlíf og samfélagsgerð viðkomandi svæða,“ segir í ályktun fundarins um umhverfismál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert