Baldur besti hakkarinn

Háskólinn í Reykjavík
Háskólinn í Reykjavík

Baldur Gíslason, nemandi á öðru ári í rafmagnstæknifræði við Háskólann í Reykjavík, var í dag kynntur sem sigurvegari hakkarakeppni HR sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur. Tilgangur keppninnar er að kenna næstu kynslóð forritara og yfirmanna tölvufyrirtækja að fyrirbyggja árásir tölvuþrjóta. Hefur Baldur starfað sem forritari í fjölda ára.

Keppnin fólst í því að brjóta sérsmíðaðan hugbúnað, sem inniheldur í það minnsta fjórar ólíkar tegundir algengra öryggisgalla, í því skyni að komast inn á tölvu. Hugbúnaðurinn, líkt og keppnin sjálf,  er þróaður af Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík.

Í tilkynningu HR segir að tölvuinnbrot nútímans séu ekki lengur framkvæmd af forvitnum unglingum heldur af stórum skipulögðum glæpasamtökum. Þessi glæpasamtök nýti sér afar bága stöðu upplýsinga- og tölvuöryggis til að stela upplýsingum, misnota búnað, framkvæma iðnaðarnjósnir og skemma fyrir samkeppnisaðilum viðskiptavina sinna.

Íslensk fyrirtæki hafi flest takmarkaða þekkingu á því hvernig unnt sé að tryggja upplýsingaöryggi. Telji þau sig nægilega vernduð með vírusvörnum og eldveggjum. Það sé hins vegar hvergi nærri því nóg þar sem gallarnir liggja í sérsmíðuðum hugbúnaði, rangri uppsetningu og ýmsum mannlegum þáttum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert