Bar ekki ábyrgð á banaslysi

Hafnarfjall.
Hafnarfjall. www.mats.is

Héraðsdómur Vesturlands hefur sýknað flutningabílstjóra af ákæru fyrir manndráp af gáleysi með því að hafa valdið banaslysi í umferðinni með gáleysislegum akstri. 

Slysið varð síðdegis, dag einn í október eftir að ökumaður flutningabílsins ók framúr jeppa á Vesturlandsvegi undir Hafnarfjalli. Þegar flutningabílnum var ekið aftur yfir á hægri akrein sveigði ökumaður jeppans til hægri undan eftirvagni flutningabílsins og missti í kjölfarið stjórn á jeppanum sem valt. Ökumaðurinn lést

Fram kemur í dómnum, að ökumaður flutningabílsins bar að ökumaður jeppans hefði aukið hraðann meðan á framúrakstrinum stóð. Hann hefði rétt náð að ljúka framúrakstrinum og víkja yfir á sinn vegarhelming til að forðast árekstur við sendibíl, sem kom úr gagnstæðri átt. Segir í dómnum að þetta sé stutt vætti ökumanns sendibílsins.

Segir í niðurstöðu dómsins, að því verði ekki vísað á bug að hraði jeppans hafi verið aukinn. Það brjóti í bága við ákvæði umferðarlaga þar sem segir, að ökumaður megi ekki auka hraðann þegar ekið sé fram úr eða torvelda framúraksturinn á annan hátt. Samkvæmt þessu sé ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að rekja megi umferðarslysið til aksturs flutningabílstjórans, sem virtur verði honum til gáleysis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert