„Evran er ekki svöl“

Jón Gnarr.
Jón Gnarr. Ómar Óskarsson

„Besti flokkurinn var fyrsti stjórnleysis-súrrealista flokkur í heimi,“ sagði Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, í ræðu sem hann flutti á laugardaginn var á Radiovision Festival. Pistlahöfundur New York Times fjallar um borgarstjórann og ræðu hans.

Radiovision Festival var lítil ráðstefna um framtíð útvarps sem haldin var í fyrsta sinn í New York á laugardaginn var. Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík, var aðalræðumaður á ráðstefnunni.

„Flokkurinn er hvorki með markmið né skoðun,“ sagði Jón Gnarr um Besta flokkinn. „Hann byggist á hreinu bulli (nonsense). Málið er að ég trúi á bull. Grín er mín trúarbrögð.“

Pistlahöfundurinn Melena Ryzik segir að áhorfendur, sem voru færri en 100 talsins, hafi hlegið að ræðunni en margið gengið út undir henni. Flestir hafi þó verið mjög ánægðir með framlag borgarstjórans í Reykjavík.

Hann vék m.a. að duttlungum fjármálamarkaðarins og sagði íslensku krónuna vera „drasl“. Jón kvaðst heldur kjósa dollarann því „evran er einfaldlega ekki svöl“. Þá svaraði hann spurningum um starf sitt sem borgarstjóri.

„Eitt af því erfiðasta sem þú getur gert í lífinu er að breyta skólakerfi. Það er svolítið eins og að flytja kirkjugarð. Þú færð ekki neina aðstoð innanfrá,“ sagði Jón Gnarr.

Pistlahöfundurinn segir að Jón hafi sýnt á sér alvarlegri hlið í viðtali baksviðs. Þar sagði hann að þeir (Besti flokkurinn) hafi fengið einstakt tækifæri til að hræra upp í hlutunum og hugsa þá upp á nýtt. „Og ég held að við verðum að gera það, allt þetta með pólitík er búið, pólitík er að deyja. Öruggur dauðdaginn mun taka svolítinn tíma og eitthvað stórkostlegt kemur í staðinn,“ sagði Jón Gnarr.

Hann langaði að sjá söngleikinn „The Book of Mormon“ sem settur er upp af South Park Studios, en Jón Gnarr er aðdáandi South Park. Honum fannst miðaverðið of hátt svo hann fór frekar á „Occupy Wall Street“-mótmælin íklæddur svörtum jakka og með órangútangrímu með appelsínugulu hári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert