Björgunarsveit hefur verið kölluð út til að sækja ökumann sem festi bíl sinn á veginum yfir Þröskulda nú í morgun. Vegurinn hefur verið lokaður vegna ófærðar og óveðurs frá því í gær.
Maðurinn var á leið að sunnan þegar hann festi bíl sinn, að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum. Ekkert mun ama að manninum annað en að hann kemst ekki leiðar sinnar. Hann mun hafa óskað aðstoðar nú í morgunsárið.
Lögreglan sagði að Vegagerðin ætlaði ekki að skoða strax með að opna veginn vegna þess hve veðrið sé vont á Þröskuldum. Samkvæmt sjálvirkri veðurstöð er þar um 17 m/s vindhraði af norðnorðaustri og yfir 20 m/s vindhviður.