Tæplega 600 umsóknir hafa borist um fjórar stjórnunarstöður og ótilgreindan fjölda af sumarstörfum flugliða sem nýtt flugfélag, WOW air, auglýsti laus til umsóknar fyrir helgi.
Fyrirtækið segir, að ráðið verði í nokkra tugi starfa, bæði stjórnunarstöður og störf flugliða, en flestar umsóknirnar sem bárust séu um störf flugliða. Fleiri föst störf hjá félaginu verði auglýst á næstunni.
Í tilkynningu segir, að undirbúningur að rekstri WOW air sé í fullum gangi og sé búist við því að hægt verði að byrja að bóka flug með félaginu á allra næstu dögum. Áætlunarflug félagsins muni svo hefjast næsta vor.
Fjárfestingarfélagið Títan, sem er í eigu Skúla Mogensens, á meirihluta í WOW air en aðrir hluthafar eru Baldur Baldursson og Matthías Imsland.