Margir vilja vinna hjá nýju flugfélagi

Tæplega 600 umsóknir hafa borist um fjórar stjórnunarstöður og ótilgreindan fjölda af sumarstörfum flugliða sem nýtt flugfélag, WOW air, auglýsti laus til umsóknar fyrir helgi.

Fyrirtækið segir, að ráðið verði í nokkra tugi starfa, bæði stjórnunarstöður og störf flugliða, en flestar umsóknirnar sem bárust séu um störf flugliða. Fleiri föst störf hjá félaginu verði auglýst á næstunni.

Í tilkynningu segir, að undirbúningur að rekstri WOW air sé í fullum gangi og sé búist við því að hægt verði að byrja að bóka flug með félaginu á allra næstu dögum. Áætlunarflug félagsins muni svo hefjast næsta vor.

Fjárfestingarfélagið Títan, sem er í eigu Skúla Mogensens, á meirihluta í WOW air  en aðrir hluthafar eru Baldur Baldursson og Matthías Imsland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert