Fréttaskýring: Ný ferja kann að taka við siglingum til Eyja

Það er samstarfshópur sem skipaður var af innanríkisráðherra sem leggur til lausnir á þessu máli,“ segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskipafélags Íslands, en aðilar að þeim hópi er nú vinnur að málefnum siglinga milli lands og Eyja eru Vegagerðin, Vestmannaeyjabær og rekstraraðilar Herjólfs.

Að beiðni Vegagerðarinnar hefur Eimskip að undanförnu leitað að ferjum sem kynnu að leysa Herjólf af og henta betur við þær aðstæður sem ríkja í Landeyjahöfn. Sendi Eimskip nýverið frá sér tilkynningu um málið þar sem m.a. annars kemur fram að reynsla af siglingum Herjólfs til Landeyjahafnar hafi sýnt að skipið sé of djúprist og eigi í erfiðleikum með bæði sterka strauma og öldur. Er jafnframt bent á að Herjólfur taki á sig of mikinn vind og því hafi hann ekki nægilega góða stjórnhæfni við vissar aðstæður. Til að bæta gráu ofan á svart munu svo nýjar reglur varðandi ferjusiglingar taka gildi árið 2015 en fyrirséð er að Herjólfur mun ekki uppfylla þær reglur.

Ferja aðlöguð aðstæðum

Að sögn Eimskips er fátt um fína drætti þegar kemur að því að finna staðgengil sem henti vel við siglingar til og frá Landeyjahöfn. Hefur skipafélagið því brugðið á það ráð að frumhanna nýja ferju sem aðlöguð hefur verið aðstæðum í Landeyjahöfn. „Það er búið að leita um allan heim að skipum og það eru tvö skip sem menn hafa fundið sem henta til þessara siglinga,“ segir Ólafur William en bætir við að þau skip liggi ekki á lausu og því hafi Eimskipafélagið lagt fram tillögu að nýju skipi. „Við fengum skipaverkfræðing til að rissa upp grófa hugmynd að því hvernig svona skip gæti litið út og hvaða tækjum og tólum það þyrfti að vera búið,“ segir Ólafur William en ítrekar að málið sé á algerum byrjunarreit og samþykki liggi ekki fyrir að svo stöddu. „Ég held að öllum sé það ljóst að það þarf nýja ferju,“ segir Ólafur William og bætir við að óvissa í samgöngumálum hljóti að vera þreytandi fyrir íbúa Vestmannaeyja.

Baldur gæti hlaupið í skarðið

Notast hefur verið við Breiðafjarðarferjuna Baldur til siglinga milli lands og Eyja þegar Herjólfur hefur þurft að fara í slipp. Að sögn Péturs Ágústssonar, framkvæmdastjóra Sæferða, hafa verið uppi þreifingar á milli forráðamanna Sæferða og Vegagerðarinnar þess efnis að Baldur fáist til siglinga í Eyjum. Pétur segir að sá möguleiki sé fyrir hendi að Baldur taki að sér þessar siglingar en til að slíkt verði þarf að tryggja áframhaldandi siglingar á núverandi leið Baldurs. „Við getum ekki sent Baldur í Vestmannaeyjasiglingar nema hafa eitthvað annað,“ segir Pétur og bendir á að sögusagnir þess eðlis að lítil og vanbúin ferja kynni að koma í stað Baldurs á siglingum um Breiðafjörð, séu alrangar. Segir hann það ljóst að ekki verði af hugmynd Sæferða nema til komi fullkomlega sambærileg ferja í stað Baldurs. Að sögn Péturs hefur verið kannað hvort til væri ferja á lausu sem sinnt gæti siglingaleið yfir Breiðafjörðinn á fullnægjandi hátt. Í ljós kom að slíka ferju er að finna í Noregi en hún mun að sögn vera fyllilega sambærileg Baldri.

„Ef menn eru á þeirri skoðun að það henti að fara eftir okkar leiðum, þá erum við tilbúnir að skoða það áfram,“ segir Pétur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka