Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á umfangsmiklu fíkniefnamáli er í fullum gangi. Tveir karlmenn sitja nú í gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsóknina. Fleiri hafa ekki verið handteknir að sögn lögreglu sem verst allra frétta af málinu.
Karl Steinar Valsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar, segir í samtali við mbl.is að ekki sé hægt að greina frá því magni fíkniefna og stera sem lögreglan lagði hald á. Ekki sé búið að bera magnið undir sakborninga en það verði líklega gert í vikunni.
Aðspurður segir Karl Steinar að lögreglan telji að það hafi staðið til að selja efnin hér á landi. Hann segir að fjölmargir lögreglumenn komi að rannsókn málsins, sem sé á frumstigi.
Tveir karlmenn, annar á sextugsaldri og hinn á fimmtugsaldri, sitja nú í gæsluvarðhaldi grunaðir um aðild að innflutningi efnanna til landsins. Karl Steinar að þetta sé stærsta fíkniefnamálið sem hefur komið upp á þessu ári. Fram hefur komið að um kókaín, e-töflur, amfetamín og stera sé að ræða.
Fíkniefnin og sterararnir fundust við leit lögreglu og tollgæslu í gámi sem kom til landsins frá Hollandi 10. október. Rannsókn málsins hefur staðið yfir í alllangan tíma og hefur verið unnin í samvinnu við tollgæsluna.
Yngri maðurinn hefur áður komið við sögu hjá lögreglu. Hann var handtekinn við komuna til landsins aðfaranótt sunnudags og var í kjölfarið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 11. nóvember. Eldri maðurinn var hins vegar handtekinn 10. október sl. í kjölfar leitar lögreglu og tollgæslu í gáminum.