Enn drepast hreindýr í girðingum

Þetta hreindýr var flækt í rafmagnsvír.
Þetta hreindýr var flækt í rafmagnsvír. nattaust.is

Tvö dauð hreindýr, flækt í girðingaefni, fundust um síðustu helgi í landi Vatnajökulsþjóðgarðs við Heinaberg skammt frá jörðinni Flatey. Stjórn Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST) var að kanna aðstæður á Mýrum ásamt tveimur hreindýraeftirlitsmönnum þegar dýrin fundust.

Einnig fannst hreindýrskýr sem var að dauða komin vegna hungurs en hún var vafin í gamla rafmagnsgirðingu. Ekki voru önnur ráð en að lóga kúnni.

„Girðingar við Flatey voru skoðaðar. Þær sem hafa helst orðið hreindýrum að fjörtjóni eru gamlar rafmagnsgirðingar sem ekkert gagn gera og hafa verið í niðurníðslu árum saman,“ segir á heimasíðu NAUST.

NAUST hefur birt myndir af hreindýrunum og frásögn af ástandinu á heimasíðu sinni. Naust birtir svohljóðandi áskorun á heimasíðunni:

„Að undanförnu hefur fjöldi hreindýra fests í girðingum, tarfar hafa fests saman á hornum í girðingaflækjum og jafnvel drepist vegna girðingadræsa sem skildar hafa verið eftir á víðavangi. Þetta ástand er óviðunandi.

NAUST skorar á bændur á Mýrum í Hornafirði, sem og aðra landeigendur og sveitarfélög á Suðaustur og Austurlandi að sýna ábyrgð og fjarlægja þá miklu hættu sem villtum dýrum og búfénaði stafar af gömlum girðingum og girðingarflækjum sem liggja á víðavangi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert