Hart var tekist á um málefni á landsfundi Vinstri grænna um helgina. Þótt forystan væri endurkjörin og fengi sínu framgengt í ýmsum málum er þó engan veginn hægt að halda því fram að hún hafi farið með sigur af hólmi í nokkrum stórmálum.
„Þetta er afdráttarlaust. Það á ekki að laga stjórnkerfi eða stofnanakerfi Íslands að kerfi Evrópusambandsins meðan á aðildarviðræðunum stendur,“ segir Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í ályktun landsfundar Vinstri grænna um aðildarviðræðurnar við ESB segir m.a. að VG muni „tryggja að íslenskt stjórnkerfi verði ekki aðlagað stjórnkerfi ESB á meðan á aðildarviðræðum stendur“.
„Þetta er það sem ég hef haldið fram og hefur verið stefna flokksins og það er bara verið að árétta það. Hafi einhverjir velkst í vafa, þá fer ekkert á milli mála að þetta er stefna flokksins og skýr skilaboð,“ segir Jón.
Á landsfundinum var tekist á um tvær greinar í ályktun í heilbrigðismálum, orðaðar á mismunandi hátt, um niðurskurðinn á heilbrigðisstofnunum. Hefur vakið athygli að tveir ráðherrar, Ögmundur Jónasson og Jón Bjarnason, og þingmaðurinn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir studdu þá grein sem mátti túlka afdráttarlaust sem andstöðu við 1,5% niðurskurð í fjárlagafrumvarpinu.
Hún var ekki samþykkt en eftir sem áður halda sumir landsfundarfulltrúar því fram, að endanleg ályktun sem samþykkt var gangi í reynd jafnlangt. Ekki sé með nokkru móti hægt að halda því fram að landsfundurinn hafi með ályktun sinni lagt blessun sína yfir þann 1,5% niðurskurð sem boðaður er. Landsfundurinn hafi sent skýr skilaboð gegn frekari niðurskurði til heilbrigðismála en þegar er orðinn.
Jón Bjarnason segir að þarna hafi fremur verið blæbrigðamunur á en efnismunur. „Það var alveg skýrt á landsfundinum að það var mikil samstaða um að ekki yrði lengra gengið í niðurskurði í heilbrigðisþjónustunni, eins og stendur í ályktuninni sem var samþykkt,“ segir Jón. Hann bendir einnig á að í annarri ályktun sem samþykkt var samhljóða er sérstök áhersla lögð á að standa vörð um þjónustuna á minni heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og lýst áhyggjum yfir þeim mikla niðurskurði sem áfram er boðaður í heilbrigðiskerfinu, sem bitni ekki síst á minni heilbrigðisstofnunum í dreifbýlinu.
„Það var tekist á um tvær greinar í tillögu um velferðarmálin sem að uppistöðu höfðu að geyma varnaðarorð gagnvart niðurskurði og kröfu um að ekki yrði haldið áfram á þeirri braut,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
„Valkostirnir sem menn stóðu síðan frammi fyrir varðandi tillögusmíðina voru annars vegar að samþykkja almennt orðalag og hins vegar að vísa til þess að áframhaldandi niðurskurður, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu, myndi án efa leiða til aukins álags á heilbrigðisstarfsmenn og geta leitt til lakari þjónustu. Þetta er bara veruleiki sem mér finnst að stjórnvöld þurfi að horfast í augu við. Jafnvel þótt niðurstaðan verði sú að samþykkja fjárlög á þessum forsendum, þá er það skylda okkar stjórnmálamanna og ríkisstjórnar að gangast við verkum okkar. Staðreyndin er sú að við höfum gengið mjög langt í niðurskurði og um það deilir enginn, innan opinberrar þjónustu og í velferðarmálum. Það er ekkert annað en sjálfsblekking ef menn halda að þetta komi hvergi niður á starfsfólki eða þjónustu. Mér finnst fráleitt annað en að horfast í augu við þetta,“ segir Ögmundur.
Fyrir fundinn var lögð ályktun um stjórnsýslu umhverfismála þar sem lagt var til að stofnað yrði umhverfis- og auðlindaráðuneyti, „þannig að rannsóknir á náttúruauðlindum lands og sjávar, verndun þeirra og áætlanir um nýtingu verði á forræði ráðuneytisins“, sagði þar m.a. Þessi tillaga um uppstokkun ráðuneyta fékk ekki hljómgrunn á fundinum.
Skv. upplýsingum Morgunblaðsins var litið svo á að ef hún yrði samþykkt væri landsfundurinn að lýsa sérstökum stuðningi við tilfærslu verkefna frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í tengslum við áform um frekari fækkun ráðuneyta með stofnun atvinnuvegaráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Inn í þetta blönduðust átök um persónur og uppstokkun ráðuneyta. Fundurinn samþykkti að vísa þessari tillögu frá.