Of brattur niðurskurður í velferðarkerfinu getur leitt til einkavæðingar og mismununar. Þetta segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra í pistli á vefsíðu sinni. Þá fagnar hann því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé farinn úr landinu. Talsvert verk sé að vinda ofan af hugsun AGS.
Segir Ögmundur í pistlinum að sterk undiralda hafi verið á landsfundi VG um helgina gegn því að ganga of langt í niðurskurði og sumir hefðu verið þeirrar skoðunar að þegar hefði verið farið of langt í honum.
Það segir hann að sé þörf áminning um þörfina á varnargörðum fyrir velferðarkerfið. Spurning sem þörf sé á að vera sívakandi fyrir sé hve langt skal gengið; hvenær niðurskurðurinn hafi gagnstæð áhrif og byrji að dýpka kreppuna með minnkandi kaupmætti og vaxandi atvinnuleysi. Þá þurfi að hyggja að hinum félagslegu réttlætismálum og þeirri kerfisbreytingu sem samdráttur í opinberri þjónustu geti valdið.
„Þannig getur of brattur niðurskurður í velferðarkerfinu leitt til einkavæðingar. Hinn sjúki og aðstandendur hans - barns, bróður eða systur, mömmu eða pabba - ÆTLA að fá lækningu, ef ekki hjá hinu opinbera þá á markaði. Svo lengi sem buddan mögulega leyfir. En einmitt þar kemur mismununin inn. Veskið hjá sumum er þykkara en veskið hjá öðrum,“ segir Ögmundur í pistli sínum.
Þá fagnar Ögmundur brottför AGS og segir að það hafi verið í skugga sjóðsins og Evrópusambandsins sem Bretar og Hollendingar hafi athafnað sig í Icesave-málinu.
„Við skulum ekki gleyma því að það var AGS sem bannaði almennar aðgerðir í skuldamálum, og hugmyndafræði AGS var hvetjandi til framkvæmda utan ríkisreiknings. Ekki gleymi ég heldur áhyggjum AGS af gjaldþrotalögunum nýju. Aldrei heyrði ég AGS hafa áhyggjur af afnámi laga um tekjutryggingu öryrkja. AGS hugsunin var niðurskurðarhugsun og stjórnunarmátinn var að innræta tilskipanir að ofan. Þetta er hugsun sem þarf að vinda ofan af og er þar talsvert verk að vinna,“ segir Ögmundur.