Mjólkurbíll frá Mjólkursamsölunni í Reykjavík, með mjólk frá bændum á Vestfjörðum, er stopp í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp vegna ófærðar á Steingrímsfjarðarheiði. Bíllinn kom til Ísafjarðar í gær með mjólk og mjólkurvörur.
Vonskuveður hefur verið á fjallvegum á Vestfjörðum í tvo sólarhringa og hefur vegurinn um Þröskulda verið lokaður í tvo daga.
Að sögn Lúðvíks Hermannssonar, mjólkurbússtjóra í Búðardal og á Ísafirði, standa vonir til að bíllinn komist leiðar sinnar á morgun.
„Þó að mjólkin komi ekki fyrr en á morgun, verður allt í lagi. Hún er í kælitönkum hjá bændum og er mjög vel kæld í bílnum. Við reynum samt að koma bílnum eins fljótt og hægt er yfir heiðina,“ segir Lúðvík.