Bilið á milli kynjanna er minnst á Íslandi samkvæmt lista sem Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum) hefur gefið út. Næst á eftir eru Norðmenn, Finnar, Svíar og Írar. Í skýrslu ráðsins kemur fram að konur standi nærri jafnfætis körlum í heilbrigði og menntun í heiminum en enn vanti upp á í efnahagslegri- og pólitískri þátttöku.
Samkvæmt skýrslu ráðsins um jafnrétti kynjanna kemur fram að búið sé að brúa bilið á milli heilbrigðis karla og kvenna um 96 prósent og 93 prósent hvað varðar menntun. Í efnahagsmálum er munurinn þó enn mikill en aðeins hefur náð að minnka það um tvo þriðju og aðeins um einn fimmta hvað varðar stjórnmálaþátttöku. Reuters-fréttastofan segir frá þessu.
„Þó að konur séu nú að verða eins hraustar og menntaðar og karlar er þeim augljóslega ekki beint inn í hagkerfið og í ákvörðunartökur í sama mæli og körlum,“ segir Saadia Zahidi, einn æðstu stjórnenda ráðsins og einn höfunda skýrslunnar.
Á lista ráðsins voru 135 lönd og var Ísland þar í efsta sæti eins og áður segir. Á botninum sátu hins vegar Sádí-Arabía, Malí, Pakistan, Tsjad og Jemen. Segir í skýrslunni að Norðurlöndin fari fremst í flokki í því að nýta menntun kvenna. Þau hafi gert foreldrum kleift að sameina vinnu og fjölskyldulíf.
Á meðal þeirra aðgerða sem skýrslan bendir á sem hafi gefist vel á Norðurlöndunum er fæðingarorlof, rausnarlegar fæðingarorlofsgreiðslur sem almannatryggingar og atvinnurekendur standi undir og skattaívilnanir.