„Þegar virkilega á reynir þá stöndum við Norðurlandabúar saman,“ sagði Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs undir lok leiðtogafundar norrænna forsætisráðherra og þingmanna Norðurlandaráðs í dag. Forsætisráðherrarnir fimm voru einhuga um standa vörð um opið, norrænt samfélag.
Þema leiðtogafundarins, sem haldinn var í dag á fyrsta degi Norðurlandaráðsþings, var opið, norrænt samfélag og var það meðal annars rætt út frá fjöldamorðunum á Útey þann 22. júlí í sumar. Borið var lof á viðbrögð Norðmanna við voðaverkunum og voru forsætisráðherrarnir fimm á einu máli um að leiðin fram á við fyrir norrænt velferðarsamfélag þyrfti að einkennast af aukinni, opinni umræðu.
„Sprengjurnar voru líka árás á hið opna lýðræðissamfélag sem við þekkjum á Norðurlöndum. Við verðum að standa vörð um þetta opna samfélag og koma í veg fyrir að óttinn skjóti rótum. Fólk sem býr við ótta er ekki frjálst,“ sagði Stoltenberg, eftir að þingsalurinn hafði sameinast í einnar mínútu þögn til minningar um fórnarlömbin á Útey.
Nýkjörinn forsætisráðherra Danmerkur, Helle Thorning Schmidt, tók undir með Stoltenberg og sagði jafnframt að grundvallargildi norrænna velferðarríkisins væri opið samfélag. „Samfélag sem er opið fyrir umheiminum og opið fyrir borgarana, frelsið til að velja og og viljinn til að ræða málin og vina saman, saman myndar þetta kjarna norræna módelsins,“ sagði Schmidt.
Nýr forseti Norðurlandaráðs, Bertel Haarder, vakti jafnframt máls á því í opnunarræðu sinni að Norðurlöndin verði að vera opin fyrir umheiminum. „Það er eðlilegt að Norðurlönd vinni saman þegar kemur að Evrópusambandinu og í ár viljum við leggja sérstaka áherslu á að það eigi sér stað samvinna í stefnumótun í utanríkismálum,“ sagði Haarder og vísaði þar meðal annars í aukin áhuga alþjóðasamfélagsins á málefnum norðurslóða.