Trúfélagsskráning barns verður ótilgreind þar til foreldrar þess, séu þeir ekki í sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi, eða annað foreldrið utan trúfélaga, taka sameiginlega ákvörðun um hvaða félagi barnið á að heyra. Þetta kemur fram í drögum að að frumvarpi um skráð trúfélög.
Frumvarpið er nú til umsagnar en ein helsta breyting þar er að staða skráðra lífsskoðunarfélaga verður jöfn stöðu skráðra trúfélaga. Þá verður forstöðumönnum skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga heimilt að tilnefna einstaklinga innan þess félags sem þeir veita forstöðu til að annast þau embættisverk sem forstöðumanni skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags eru falin samkvæmt lögum, s.s. skírn og gifting.
Hvað viðkemur skráningu barna í trúfélög eða lífsskoðunarfélög við fæðingu eru nokkrir möguleikar.
- Séu foreldrar barns í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess skal það heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og foreldrar þess. Sama gildir ef foreldrar eru utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga.
- Ef foreldrar barns, sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess, heyra ekki til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða annað foreldrið er utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga, skulu þeir taka sameiginlega ákvörðun um hvort og þá til hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barnið eigi að heyra. Fram til þess tíma verður þessi staða barnsins ótilgreind.
- Ef foreldrar barns eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þegar barn fæðist skal það heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og það foreldri sem fer með forsjá þess. Sama gildir ef foreldrið er utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga.
Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2013.
Vefur innanríkisráðuneytis