Styðja aðildarferli með virkum hætti

Evrópusambandið, höfuðstöðvar, Brussel.
Evrópusambandið, höfuðstöðvar, Brussel. AP

Í stjórnarsáttmála dönsku ríkisstjórnarinnar er sérstaklega áréttað að hún hyggist styðja með virkum hætti við aðildarferli Íslands að ESB, en Danir taka við við formennsku um áramót í Evrópusambandinu. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, fundaði í dag með Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur.

Forsætisráðherrarnir ræddu sérstaklega um ferli viðræðnanna á næstu mánuðum, en fyrirséð er að auk þeirra kafla sem opnaðir verða á þessu ári á tímabili formennsku Póllands, verði langflestir samningskaflanna sem eftir eru opnaðir í tíð dönsku formennskunnar.

Danir gegna formennsku í Evrópusambandinu til 30. júní 2012 og víst að mörgum kaflanna verður einnig lokað á þessum tíma.

Þá var rætt um efnahagsmál og nýlegar aðgerðir sem leiðtogar í Evrópu hafa unnið að og samþykktar voru í síðustu viku, m.a. vegna stöðu evrusvæðisins. Jafnframt ræddu forsætisráðherrarnir um stöðu mála varðandi endurreisn efnahagslífsins á Íslandi.

Forsætisráðherra bauð jafnframt danska forsætisráðherranum í heimsókn til Íslands á næsta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert