Búið er að taka niður tjöld sem hópur mótmælenda, sem kennir sig við Occupy Reykjavík, reisti á Austurvelli. Borgaryfirvöld gerðu þá kröfu að tjöldin yrðu fjarlægð.
Að sögn lögreglu sáu mótmælendurnir sjálfir um taka niður tjöldin, sem voru fjögur talsins, á meðan lögreglumenn og borgarstarfsmenn fylgdust með á þriðja tímanum í dag. Um fimm mótmælendur voru á staðnum segir lögregla.
Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, sagði í samtali við mbl.is að Reykjavíkurborg hefði gert þá kröfu að tjöldin yrðu fjarlægð þar sem ekki væri heimild fyrir þeim. „Lögreglan er að veita borginni aðstoð í þeim efnum,“ segir Geir Jón.
„Það er óheimilt að tjalda á opnum svæðum borgarinnar nema með heimild borgarinnar,“ segir Geir Jón ennfremur.
Lögreglan tekur fram að fólki sé heimilt að mótmæla á Austurvelli en menn verði hins vegar að fá leyfi til að setja niður tjöld á svæðinu.
Mótmælendurnir eru hluti af mótmælahreyfingu sem hófst við Wall Street í New York í september og hefur síðan breiðst út víða um heim.