Tólf þingmenn úr öllum flokkum nema Hreyfingunni hafa lagt fram þingsályktunartillögu sem felur í sér að Ríkisendurskoðun hafi reglulegt eftirlit með kostnaði við umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og birti upplýsingar um þann kostnað ársfjórðungslega. Málið var einnig flutt á síðasta þingi en fékk ekki afgreiðslu.
Flutningsmaður tillögunnar er Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, en með honum eru t.d. Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, og Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Auk þess er að finna fleiri sjálfstæðismenn og tvo þingmenn Framsóknarflokks.
Í greinargerð með tillögunni segir að málið sé hafið yfir deilur um réttmæti umsóknarinnar um aðild að Evrópusambandinu. Það snúi að því að eðlilegt sé að upplýsingar af þessum toga séu opinberar og aðgengilegar og komi í veg fyrir tortryggni og getsakir um mál sem mjög margir láta sig varða.