Jón Gnarr, borgarstjóri, sagði á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag, að hann teldi að sameina eigi öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu í eitt og nýta þannig hagkvæmni stærðarinnar.
Jón nefndi sem dæmi að það væri áhugavert að skoða sameiningu Reykjavíkur við Seltjarnarnes.
Hann sagði að Reykjavíkurborg niðurgreiddi fullt af þjónustu, með t.d. útsvarstekjum, sem önnur sveitarfélög nytu góðs af og ræða mætti hvort það sé sanngjarnt.
Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagði að borgarstjóri væri greinilega genginn inn á það hvítasunnutrúboð, sem verið hefði um sameiningu allra sveitarfélaganna. Sagðist Gísli Marteinn ekki vera jafnsannfærður enda væri feikimikill munur á Reykjavík og öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Það sé alls ekkert augljóst, að það sé gott fyrir Reykvíkinga að innlima önnur sveitarfélög á svæðinu.
Jón Gnarr sagðist vilja gera athugasemdir við það þegar Gísli Marteinn kallaði málflutning hans „hvítasunnutrúboð“. Gísli Marteinn sagði þetta ekki hafa verið illa meint heldur hefði hann tekið svona til orða.
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, spurði Jón hvort nokkur hefði spurt Seltirninga hvort þeir hefðu áhuga á að sameinast Reykjavík og hvort Jón hefði rætt þessi mál við bæjarstjóra á svæðinu. „Eða er þetta allt í kollinum á borgarstjóranum?“ spurði Júlíus Vífill.
Jón sagðist ítrekað hafa nefnt á fundum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, að hefja eigi viðræður um kosti og galla sameiningar.
„Og hver voru svörin, hver eru næstu skrefin?“ spurði Júlíus Vífill.