„Eitt ljóð getur orðið vinur manns alla mannsævina,“ sagði Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, þegar hann mælti fyrir þingsályktunartillögu um aukinn hlut ljóðakennslu og skólasöng í námskrá grunnskóla og framhaldsskóla. Tillagan fékk góðan hljómgrunn annarra þingmanna.
Árni sagði það löngum þótt góðan sið í ýmsum skólum landsins að rækta söng og ljóðalestur. Hugsanlega hafi ekkert stutt jafn vel við verndun og sókn íslenskrar tungu. „Ljóðakennslan hefur reynst mörgum sem traustur lífsförunautur og styrkt málnotkun á áberandi hátt,“ sagði Árni og einnig að ljóðaþátturinn eigi að vera aðalsmerki Íslendinga, til að verja og byggja upp íslenska tungu.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, tók nokkuð vel í tillögur Árna. Hún minntist þó á, að sjálf hafi hún verið alin upp við ljóð og söng en nánast hafi drepið áhuga hennar á ljóðum, kennslan í grunnskóla upp úr bláu bókinni, þ.e. Skólaljóðum.
Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist ekki ekki sammála Birgittu með bláu bókina. Hann lærði mikið upp úr henni utanbókar og flettir enn í dag upp í henni.
Björgvin þakkaði Árna fyrir tillöguna og sagði hana mjög góða. Hann benti á að nýverið hafi verið greint frá sláandi niðurstöðu um læsi skólabarna og minnti á að góð kunnátta í lestri sé undirstaða allrar annarrar menntunar. Tillaga Árna varpi mynd á málið og telur Björgvin að ljóðakennsla geti skipt miklu máli í móðurmálskennslu.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagðist einnig mjög ánægður með tillöguna og sagði fátt, og sennilega ekkert, „ydda betur máltilfinningu“ en ljóð. Minntist hann þess að hafa sjálfur reynt að fíkta við ljóðaskrif en með ýmsum afleiðingum. „Það kennir mönnum að segja mikið með fáum vel völdum orðum.“ Hann vonaðist til að tillagan fái framgang og hægt verði að efla málvitund og þroska fólks með ljóðum.