Stjórn Félags eldri borgara í Hafnarfirði mótmælir harðlega þeirri ákvörðun velferðarráðherra að loka St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Er þetta í samræmi við ályktun félagsins þar sem einnig sagði að ekki væri forsvaranlegt að draga Hafnfirðinga endalaust á loforðum um framkvæmdir í öldrunarmálum.
Málið var tekið fyrir á fundi fjölskylduráðs Hafnarfjarðar í dag og niðurstaðan sú að ráðið taki undir áhyggjur Félags eldri borgara í Hafnarfirði, auk þess sem ítrekuð voru mótmæli bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og krafan um að ákvörðunin verði endurskoðuð og sameining við LSH gangi til baka.