Hafa aðstoðað tugi bíla

Margar ferðir hafa verið farnar á Patrol jeppa Dagrenningar til …
Margar ferðir hafa verið farnar á Patrol jeppa Dagrenningar til að aðstoða fasta ökumenn undanfarið. http://dagrenning.123.is

Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík fór í gærkvöldi upp á Þröskulda og í gær á Steingrímsfjarðarheiði til að aðstoða ferðamenn sem komust ekki leiðar sinnar. Búið er að aðstoða tugi bíla á Þröskuldum frá því vegurinn lokaðist á sunnudaginn var.

Sigurður Árni Vilhjálmsson, formaður Dagrenningar, fór upp á Þröskulda í gærkvöldi til að aðstoða enn einn ferðamann og hafði sá fest jeppling sinn í snjó. Hann lagði á fjallið þrátt fyrir að vegurinn væri lokaður.

„Það var ekkert svakaleg blinda þegar við fórum þarna í gær, það lægði smástund,“ sagði Sigurður. Hann sagði að Vegagerðin hefði sett keilur eða skilti með blikkljósi beggja vegna við leiðina yfir Þröskulda þar sem stæði að vegurinn væri lokaður.

Ökumaðurinn sem festi bíl sinn í gærkvöldi sagðist ekki hafa séð skiltið. Hann var á leið að vestan á jepplingi og festi hann bílinn Gautsdalsmegin, þ.e. sunnanmegin, í stífum snjónum á veginum. Sigurður sagði að snjórinn hefði safnast á veginn Gautsdalsmegin þegar komið væri yfir Þröskulda, þar sem vegurinn lægi hæst, og þar festi bílarnir sig. Hann sagði að ófærðin væri ekki Arnkötludalsmegin.

Björgunarsveitarmennirnir úr Dagrenningu fara á Nissan Patrol-jeppa sveitarinnar sem er á 41 tommu dekkjum. Auðvelt er að fara þarna yfir á honum þrátt fyrir ófærðina, að sögn Sigurðar.

Hann sagði að eftir að vegurinn lokaðist á sunnudaginn var hefðu um tíu bílar verið aðstoðaðir þann dag. Auk þess var mörgum bílum bægt frá leiðinni eftir að rúta snerist þversum á veginum.

Björgunarsveitin aðstoðar bílana við að komast niður Gautsdalsmegin, því erfitt er að koma þeim upp skaflana hina leiðina.

Liðsmenn Dagrenningar fóru einnig í leiðangur á Steingrímsfjarðarheiði í gær til að aðstoða par sem var þar á biluðum jeppa. Steingrímsfjarðarheiði var lokuð í gær og mjög blint en lítill snjór. Sigurður sagði að ekkert hefði amað að fólkinu og það hefði beðið í bílnum.

Hann sagði of algengt að Íslendingar byggju sig illa til ferðalaga, væru illa klæddir og vanbúnir og kynntu sér ekki færð og veður. „Maður hefur oft rekið sig á þetta. Við búum ennþá á Íslandi, þótt fólk virðist ekki átta sig á því,“ sagði Sigurður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert