Ráðherrar utanríkismála og Evrópumála hétu á fundum með utanríkisráðherra Íslands í dag eindregnum stuðningi danskra stjórnvalda við mögulega aðild Íslands að ESB og vilja Dana til að viðhalda góðum gangi í viðræðunum. Fundurinn fór fram í tengslum við fund Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.
Á fundunum fóru ráðherrarnir yfir stöðu mála í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins en tveir kaflar í viðræðunum voru opnaðir og þeim lokað nú í október. Þá ræddu þeir fyrirhugaða formennsku Dana í Evrópusambandinu sem hefst um áramót en Össur hefur lýst því yfir að hann vilji opna alla útistandandi kafla í aðildarviðræðunum í formennskutíð Dana.
Á fundinum með Evrópuráðherra Dana staðfesti Nikolai Wammen eindreginn stuðning danskra stjórnvalda við mögulega aðild Íslands að ESB og vilja Dana til að viðhalda góðum gangi í viðræðunum. Ráðherrarnir ræddu stöðu mála á evrusvæðinu og aðgerðir ESB til ráða bug á skuldavanda einstakra ríkja.
Á fundi utanríkisráðherra með Villy Søvndal ræddu ráðherrarnir einnig málefni Palestínu og sameiginlega hagsmuni á norðurslóðum.