Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hvatti í dag Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, til að gera allt sem í hans valdi stendur til að hraða vinnu við undirbúning viðræðna við Evrópusambandið um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál.
Björgvin sagði á Alþingi í dag að stuðningur Dana við aðildarferli Íslendinga að Evrópusambandinu væri mikið ánægjuefni og mikilvægt að nýta velvild Dananna til að hraða viðræðum um sjávarútveg og landbúnað.
„En þá skiptir auðvitað máli að hæstvirtur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra láti af fyrirstöðu sinni í aðildarviðræðunum þar sem hann fer með tvo erfiðustu kaflana sem mikilvægt er að opna núna og komast sem lengst með undir forustu Dana í Evrópusambandinu," sagði Björgvin.