Agnes Arnardóttir, annar eigandi verslunarinnar Úti og inni á Akureyri, lagði í morgun inn kæru á hendur Landsbankanum hjá sýslumanninum á Akureyri. Hún kærir bankann fyrir þjófnað.
Hún kvaðst styðja kæruna þeim rökum að hún og maðurinn hennar, Jóhannes Sigursveinsson, sem eiga verslunina, hafi fengið lánalínu hjá Landsbankanum upp á 80 milljónir króna árið 2007 vegna byggingar verslunarhúsnæðis. „Ég fékk ákveðna upphæð lánaða og er búin að borga af henni og taldi mig skulda ákveðna upphæð eftir það. Þeir krefja mig um tugi milljóna fram yfir það og það tel ég vera þjófnað,“ sagði Agnes.
Búið er að borga um 24 milljónir af láninu og það stendur nú í rúmlega 128 milljónum króna, að mati bankans. Agnes sagði að þeim hafi verið boðinn einhver afsláttur af láninu þannig að þau ættu eftir að borga í kringum 100 milljónir.
Hefur ekkert fengið afskrifað
„Ég er ekki sátt við þetta. Bankinn segir að þetta sé sama og hann bjóði öllum hinum. Ég veit að það er ekki svo. Samkeppnisaðili okkar Húsasmiðjan fékk afskrifaðar þúsundir milljóna en bankinn hefur ekki afskrifað neitt hjá mér,“ sagði Agnes.
Hún sagði að Landsbankinn hefði tekið Húsasmiðjuna yfir og haldið áfram að reka hana. Á því tímabili hafi Húsasmiðjan tapað um 880 milljónum. Svo hafi hún verið seld Framtakssjóðnum í gegnum Vestia. Á því tímabili hafi um þúsund milljónir verið lagðar í fyrirtækið í viðbót.
Síðan hafi fyrirtækið tapað um 300 milljónum. Nú sé Húsasmiðjan í söluferli og Landsbankinn sjái um það. „Við erum í beinni samkeppni við þá,“ sagði Agnes.
Gengistryggð lán eins og Agnes tók hafa verið dæmd ólögleg, bæði í héraðsdómi og Hæstarétti, að hennar sögn. Hún sagði að síðast hafi gengið dómur í svonefndu Mótormax máli og að lánasamningur hennar hafi verið sambærilegur við þann samning.
„Ég hef fengið fjóra lögfræðinga til að skoða þetta og þeir segja allir að þetta sé samskonar samningur,“ sagði Agnes.
Þvinguð til að setja aukin veð
Byggingin var komin vel á veg þegar allt hrundi. Þá var búið að draga um 50 milljónir á lánalínuna sem upp á 80 milljónir. „Við fengum viðbót af lánalínunni eftir hrun og vorum þvinguð til að leggja íbúðarhúsið okkar undir ásamt því að fá veð frá utanaðkomandi aðila til að fylla upp í loforðið sem var upphaflega í lánalínunni,“ sagði Agnes.
Hún sagði að lögfræðingar segi þetta jafngilda veðkalli. Þetta hafi þau látið yfir sig ganga og talið að þau gætu ekki annað.
„Við vorum með fullt hús af iðnaðarmönnum og gátum ekki hugsað okkur að láta þá tapa vinnulaunum sínum. Eins vorum við búin að selja frá okkur tvö bil og gátum ekki hugsað okkur að það fólk myndi tapa sínu. Þess vegna samþykktum við þennan gjörning,“ sagði Agnes.
Hún sagði að þau hefðu hugsað sér að þau gætu reynt að semja um þetta ef það félli dómur í sambærilegu máli. Það virðist ekki vera hægt því bankinn vilji ekki semja. „Þeir segjast ekki vera búnir að taka afstöðu til þess hvort þetta lán sé löglegt eða ekki,“ sagði Agnes. Hún sagðist spyrja sig hvort þess þurfi þegar dómstólar séu búnir að dæma lánin ólögleg.
Eru í fáránlegri stöðu
„Þetta er fáránleg staða sem við erum í og ekki bara við,“ sagði Agnes. „Það eru margir í sömu stöðu. Ég vildi óska þess að fleiri taki upp á því sama og ég til að sýna þeim í eitt skipti fyrir öll að þeir geti ekki komið svona fram.“
Agnes og maður hennar eru ein eftir af starfsfólki búðarinnar. Agnes segir að þau geti ekki borgað sér laun út úr rekstrinum og hafi skipst á að fara til Noregs í vinnu til þess að hafa einhverjar tekjur og geta haldið baráttunni áfram.
Agnes sagðist ekki vita hvert framhaldið verði. „Við erum lítið fyrirtæki og eigum engan pening. Bankinn er að verða búinn að eyðileggja fyrirtækið okkar. Ég get ekki varist. Ég hef ekki ráð á lögfræðingi,“ sagði Agnes. „Ég ætla sjá hvort við fáum einhverja samstöðu um að höfða mál gegn bankanum. Til þess þarf ég lögfræðing og einhverja fjármuni til að borga honum.“