Mæðgur brátt lausar úr haldi

Mæðgurnar, sem grunaðar eru um stórfellda þjófnaði í fataverslunum, verða látnar lausar úr haldi lögreglu í kvöld.  Að sögn Geirs Jóns Þórissonar, yfirlögregluþjóns í lögreglunni í Reykjavík, þótti ekki ástæða til að fara fram á að gæsluvarðhaldsúrskurður yfir þeim yrði framlengdur.

„Rannsóknin hefur gengið vel og við teljum að það skaði ekki rannsóknarhagsmuni, þó að þær verði látnar lausar,“ segir Geir Jón. „En við erum ennþá að vinna í málinu.“

Á heimilum mæðgnanna fundust meira en fjörutíu svartir ruslapokar, fullir af dýrum fatnaði og skóm. Talið er að andvirði þýfisins sé hátt á annan tug milljóna króna. Einnig voru þar kannabisplöntur og tæp hálf milljón króna í reiðufé.

Konurnar voru gripnar í Smáralind í Kópavogi fyrir nokkrum dögum síðan með sérútbúinn poka, sem var fóðraður að innan með álpappír, en þannig gátu þær varist þjófavörnum verslana.

Leitað var á heimili móðurinnar, þá fannst  lítill hluti þýfisins og var þeim sleppt úr haldi að loknum yfirheyrslum.  

Nokkrum dögum síðar var ákveðið að leggja hald á tölvu á heimili móðurinnar, en þá var þar mikið magn, um 30 pokar, af meintu þýfi sem ekki hafði verið þar við fyrri húsleit og einnig fannst fatnaður sem fyllti tíu poka á heimili dótturinnar, sem er 17 ára. Í framhaldi af þessu voru konurnar úrskurðaðar í gæsluvarðhald.

Geir Jón segir að lögregla hafi leitað víða að meira þýfi, en ekkert fundið til viðbótar. Lögregla telji sig nú hafa leitað af sér allan grun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert