Ófremdarástand hefur ríkt í verslun Samkaupa á Selfossi síðustu helgar á kvöldin þar sem unglingar safnast saman í anddyri verslunarinnar, skemma hluti og eru dónalegir við starfsfólk og jafnvel viðskiptavini.
„Við erum búin að fá meira en nóg og segjum hingað og ekki lengra, nú verður þessum skrílslátum unglinganna að linna og hnupl úr versluninni að hætta, foreldrar verða að fylgjast betur með unglingunum sínum og vita hvar þeir halda sig á kvöldin, við erum engin félagsmiðstöð“, segir Ragnhildur Vilhjálmsdóttir, verslunarstjóri hjá Samkaup á Selfossi í samtali við vefinn DFS.is.
„Hér er verið að stela vörum alla daga og þurfum við að vakta unglingana á meðan þeir koma hingað t.d. á morgnana í frímínútum, þeir hika ekki við að stinga einhverju inn á sig þrátt fyrir að það séu 8 öryggismyndavélar í versluninni, þeim er alveg sama“, bætti Ragnhildur við. Nú hefur verið ákveðið að öryggisvörður frá Öryggismiðstöðinni verði í versluninni á morgnana, um miðjan dag og einnig á kvöldin þegar versluninni er lokað til að bregðast við ástandi síðustu vikna, segir í frétt DFS.is.