Spá 6% atvinnuleysi á næsta ári

Atvinnuleysi mælist nú 6,6%
Atvinnuleysi mælist nú 6,6% mbl.is/Ómar

Seðlabankinn spáir því að atvinnuleysi verði rétt yfir 6% meginhluta næsta árs og að það verði komið í um 5% á seinni hluta spátímans, spáin nær til ársloka 2014, sem er lítillega meira atvinnuleysi en spáð var í ágúst, enda vöxtur launakostnaðar heldur meiri á seinni hluta spátímans.

Atvinnuleysi, eins og það er skráð hjá Vinnumálastofnun, var svipað á þriðja fjórðungi ársins og gert var ráð fyrir í ágústspá Peningamála eða 6,6%. Um 1.500 færri hafa verið atvinnulausir það sem af er ári en á sama tíma í fyrra og atvinnuleysi mælst 0,7 prósentum minna.

Fleiri nýskráningar en gjaldþrot

Gjaldþrotum fyrirtækja hefur fjölgað verulega í ár. Í ágúst höfðu 950 fyrirtæki orðið gjaldþrota það sem af er ári samanborið við 980 allt árið í fyrra. Endurskipulagning á skuldum lítilla og meðalstórra fyrirtækja það sem af er ári virðist hins vegar ekki hafa leitt til aukins atvinnuleysis eins og búist hafði verið við og skýrist líklega að einhverju leyti af því að nýjum fyrirtækjum hefur fjölgað meira en þeim sem verða gjaldþrota, að því er fram kemur í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

„Tölur Vinnumálastofnunar sýna að flestir fara af atvinnuleysisskrá vegna þess að þeir hafa ráðið sig í launað starf. Þess ber þó að gæta að orsakir um þriðjungs afskráninga eru óþekktar. Líklegt er að í þeim hópi séu einhverjir sem fá vinnu, flytjast af landi brott og tilkynna það ekki til Vinnumálastofnunar og atvinnulausir sem eru afskráðir vegna þess að þeir svara ekki atvinnutilboðum eða mæta ekki í viðtal hjá Vinnumálastofnun.

Ef horft er fram hjá þessum hópi skýrast um 70% afskráninga af því að atvinnulausir fara í launaða vinnu.

Aðrar algengar skýringar á afskráningu eru þær að fólk fer í skóla eða flytur búferlum. Flutningur af landi brott skýrir um 8% afskráninga á fyrsta fjórðungi ársins, sem er lítillega lægra en síðustu tvö ár. Brottflutningur í kjölfar efnahagssamdráttarins hefur að öllum líkindum haft í för með sér að atvinnuleysi jókst minna en ella í samdrættinum 2009 og 2010," segir í Peningamálum.

Stærstur hluti enn búsettur hér

Skýrist það einna helst af mikilli aukningu erlends vinnuafls á árunum 2005-2007 sem jók verulega á sveigjanleika á íslenskum vinnumarkaði. Tæplega helmingur þeirra sem fluttu af landi brott umfram þá sem fluttu til landsins á árunum 2009 og 2010 voru erlendir ríkisborgarar, en það er meira en fjórum sinnum hlutur þeirra í heildarvinnuaflinu þegar hann varð sem mestur í uppsveiflunni. Stærsti hluti þeirra erlendu ríkisborgara sem fluttu hingað á uppgangsárunum 2005-2008 er þó enn hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert