Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði á Alþingi í dag, að kalla þurfi á sérstaka túlkaþjónustu til að skilja ályktanir stjórnmálaflokks og vísaði þar til tveggja ályktana um heilbrigðismál á landsfundi VG um síðustu helgi.
„Væri ekki ráð að vísa þessum ályktunum tveimur til þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins þannig að við hin getum farið að skilja hvað um er að ræða," sagði Einar.
Hann sagði að í gær hefðu flutningsmaður annarrar tillögunnar lýst því yfir að hún væri um að draga til baka niðurskurðaráform í heilbrigðismálum í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár. Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks VG, hefði hins vegar lýst þeim skilningi á Alþingi í gær, að tillagan fjallaði um að láta gott heita í niðurskurði eftir næsta ár. Sama skilningi hefði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, lýst.
En Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, svaraði spurningi Lilju Mósesdóttur, óháðs þingmanns, á Alþingi um málið í dag þannig, að á landsfundi VG hefðu komið skýrt fram þungar áhyggjur af niðurskurði í heilbrigðismálum, bæði þeim sem þegar væri orðinn og þeim sem væri fyrirhugaður.
„Ég hlýt að líta á það sem mat landsfundar að það beri að endurskoða boðaðan niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni," sagði Guðfríður Lilja.
Einar sagði, að fá yrði úr því skorið hvort ályktunin hefði verið sérstök stuðningsyfirlýsing við áform um stórfelldan niðurskurð í heilbrigðismálum eða ekki. „Það greinilega bullandi ágreiningur um það hvernig eigi að skilja orðin í VG. Við vitum um allan hinn ágreininginn en nú eru þeir hættir að skilja hver annann þótt þeir tali allir íslensku."