„Vegagerðin er enn og aftur orðin gerandi og hamlandi þáttur í lífsskilyrðum Vestfirðinga. Að heiðar skuli ekki vera ruddar hefur gífurleg áhrif á starfsemi okkar og annarra fyrirtækja fyrir vestan, auk þess sem það hefur áhrif á lífsskilyrði íbúa á Vestfjörðum,“ segir Jóhann Jónasson, íbúi á Ísafirði.
Á vef Bæjarins besta á Ísafirði segir að nokkur óánægja sé með þjónustu og upplýsingastreymi Vegagerðarinnar vegna ófærðar á Steingrímsfjarðarheiði, en vegurinn var sagður ófær í allan gærdag.
Á korti Vegagerðarinnar kl. 22 í gærkvöldi hafi hins vegar mátt sjá að 44 bílar höfðu farið yfir heiðina þrátt fyrir að vegurinn væri sagður lokaður.
Jóhann segir að þetta sýni að fólk taki ekki lengur mark á tilmælum Vegagerðarinnar vegna þess að starfsmenn hennar hafi ekki skilið mikilvægi þessarar samgönguleiðar eða horft til hagsmuna almennings sem þarf á tryggum samgöngum að halda, en ekki einhvers konar tilvísanakerfi.
Að sögn Sverris Guðbrandssonar, verkstjóra hjá Vegagerðinni í Hólmavík, var vegurinn ófær vegna veðurs en ekki vegna ófærðar. Skyggni var slæmt, vindhraði mikill og mikil ofankoma og skafrenningur. Hann bendir á upplýsingasímann 1777 til að fá frekari upplýsingar um færð.
Jóhann segist hafa hringt þangað, en engar upplýsingar fengið um veginn. „Aðeins að hann væri lokaður og ef ég reyndi að fara yfir, væri það á mína eigin ábyrgð. Það er ótrúlegt að við skulum vera að horfa upp á að Vegagerðin geti haldið okkur svona í gíslingu,“ segir Jóhann.