7% minni umferð

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu dróst saman um 3% í október
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu dróst saman um 3% í október mbl.is/Ernir

Umferðin í október á 16 lykilteljurum Vegagerðarinnar reyndist sjö prósentum minni en í október 2010. Þetta er fjórði mesti samdráttur umferðar í einum mánuði í ár. Áður hafði umferðin dregist meira saman í janúar eða um 7,1%, 15,5% í mars og 9,6% í maí.

Nú stefnir í að umferðin árið 2011 verði 4,5-5,0 prósentum minni en árið 2010. Útlit er fyrir að umferðin á Hringveginum í ár verði þannig nokkuð minni en hún var árið 2006 en eigi að síður nokkuð meiri en árið 2005.

Samdrátturinn mestur á Norðurlandi

Samdráttur í umferð varð á öllum landssvæðum en mestur varð hann um Norðurland eða 8,8%. Litlu minni varð samdrátturinn um Vesturland eða 8,6%. Minnst dróst umferðin saman um Austurland eða 2,4% og 6,2% samdráttur mældist á Hringvegi við og um höfuðborgarsvæðið.

12,4% færri aka um Holtavörðuheiði

Hvað varðar einstaka talningastaði þá jókst umferðin mest um Hvalsnes í Lóni eða um 3,6% en mest dróst umferðin saman á Holtavörðuheiði eða 12,4%.

Umferðin á þremur mælipunktum Vegagerðarinnar innan höfuðborgarsvæðisins dróst saman um ríflega 3 prósent í október. Það stefnir í að samdrátturinn verði um 2,6 prósent í heild í ár.

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu yrði þannig nokkuð minni en í fyrra en eigi að síður meiri en árið 2006.

Samdráttur í umferð varð í öllum mælisniðunum þremur á höfuðborgarsvæðinu. Mest dróst umferðin saman á Hafnarfjarðarvegi sunnan Kópavogslækjar eða um 5,7%, en minnst á Reykjanesbraut við Dalveg um 1,6%, Vesturlandsvegur á móts við Skeljung, ofan Ártúnsbrekku, er síðan nánast mitt á mill þessara tveggja með 3,7% samdrátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert