Amal Tamimi varð í dag fyrsta konan af erlendum uppruna til að taka sæti á Alþingi en hún situr fyrir Samfylkinguna í fjarveru Lúðvíks Geirssonar. Hún kom til landsins frá Palestínu fyrir 16 árum síðan og varð íslenskur ríkisborgari árið 2002.
Amal er sex barna móðir en hún hefur þurft að hafa fyrir hlutunum hér á landi og hefur m.a. starfað við ræstingar og fiskvinnslu. En hún segir mikið hafa breyst á Íslandi frá því að hún kom fyrst til landsins og seta hennar á þingi sé á vissan hátt táknræn fyrir þær breytingar.