Mikilvægustu göngu- og hjólastígar milli borgarhluta fá forgang í snjóhreinsun á veturna og síðan megingönguleiðir að strætóskýlum og skólum og eiga þær að vera greiðfærar fyrir kl. 8. Sandur er notaður til að draga úr hálku á gönguleiðum en ekki salt eins og á akstursleiðum.
Í frétt á vef Reykjavíkurborgar segir að í borginni sé vakt allan sólarhringinn vegna snjóhreinsunar og hálkueyðingar. Til að bregðast skjótt við er almenn vakt yfir veturinn frá fjögur á morgnana til klukkan tíu öll kvöld. Á næturnar hefur lögreglan aðgang að bakvakt en einnig hugar vaktmaður sérstaklega að aðstæðum á nokkrum stöðum í borginni klukkan þrjú allar nætur nema sunnudaga en þá er farið af stað klukkan fimm. Ef lögreglan óskar eftir eða vaktmaður telur ástæðu til er mannskapur ræstur út til snjóhreinsunar og hálkueyðingar.
Við snjóhreinsun húsagatna er lögð áhersla á að gera leiðir greiðar, en gengið er út frá því að íbúar hreinsi þá snjóhryggi sem myndast við snjóruðninginn. Áhersla borgarinnar er að halda akstursleiðunum opnum.