Hætt að selja hvalkjöt

Hvalkjöt hefur verið tekið úr sölu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eftir að breskir ferðamenn voru varaðir við því af breskum stjórnvöldum að ferðamenn sem væru með hvalkjöt í fórum sínum við komu til Bretlands ættu yfir höfði sér háa sekt og jafnvel fangelsisdóm.

Í frétt breska dagblaðsins Guardian í kvöld kemur fram að bæði breska utanríkisþjónustan og náttúruverndarsinnar fagni sigri í málinu og það án þess að senda hafi þurft herskip á Íslandsmið. Kemur fram í fréttinni að einungis nokkrum klukkustundum eftir að breska utanríkisráðuneytið varaði breska ferðamenn við kaupum á hvalkjöti hafi íslensk yfirvöld fjarlægt kjötið úr verslun í Leifsstöð.

Um 70 þúsund Bretar sækja Ísland heim á hverju ári.

Stutt er síðan bandarísk samtök um verndun höfrunga og hvala gagnrýndu að ferðamenn væru ekki varaðir við í Leifsstöð en þar hefur hrefnukjöt verið til sölu.

Samtökin gagnrýndu að starfsfólk í Leifsstöð sem seldi hvalkjöt upplýsti ekki ferðamenn að hvalkjöt væri ólöglegt í sumum löndum.

Á vef breska utanríkisráðuneytisins kemur fram að innflutningur á hvalkjöti muni leiða til þess að kjötið verði gert upptækt og viðkomandi þurfi að greiða allt að fimm þúsund pund í sekt, eða sæta jafnvel fangelsi.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert