Ingvi Hrafn Jónsson fjölmiðlamaður hyggst fara fram á rannsókn á þeirri læknismeðferð sem bróðir hans heitinn, Óli Tynes fréttamaður, fékk á krabbameinsdeild Landspítalans.
Óli lést nýlega af krabbameini og var jarðsunginn í dag.
„Ég lofaði honum því á dánarbeði að ég myndi óska eftir því við landlækni að fram færi rannsókn á læknismeðferðarferli hans á Landspítalanum þegar hann kom þangað aftur inn veikur. Hann var mjög ósáttur við hvernig fór og fékk að eigin mati enga læknismeðferð þegar hann greindist með krabbamein aftur,“ segir Ingvi Hrafn, en Óli hafði nýverið verið í krabbameinsmeðferð og var talinn hafa læknast af því.
„Ég mun hringja í landlækni strax í fyrramálið og spyrja hvernig ég eigi að koma þessari ósk á framfæri.“
„Óli ætlaði sjálfur að skrifa bréf til landlæknis, sem yrði birt að honum látnum. En hann missti þrek og gat aldrei klárað það. Ég spurði hann hvort við ættum að klára þetta bréf saman, en hann sagði „Nei, ég á ekkert í það lengur. Þú verður að sjá um það fyrir mig.“
Ingvi Hrafn segist vera búinn að vera í samskiptum við Björn Zoëga, forstjóra Landspítalans, vegna þessa.
„Ég sagði honum að ég myndi, fyrir hönd Óla látins, óska eftir að ferlið síðustu tvo mánuðina hans á spítalanum verði kannað. Kannski verður niðurstaðan sú að þetta hafi verið allt í lagi. En þá hef ég allavegana uppfyllt síðustu ósk hans við mig. Það eina sem fyrir Óla vakti, þegar hann ætlaði að skrifa þetta opna bréf sem hann gat aldrei klárað var að ef einhverju hefði verið ábótavant, þá myndi þetta verða til þess að aðrir lentu ekki í því sama.“