Lífeyrissjóðurinn harðasti rukkarinn

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra á Alþingi.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra á Alþingi. Kristinn Ingvarsson

Hlutur lífeyrissjóða í úrlausn á skuldavanda heimilanna er óþægilega lítill og ekki gengur að þeir séu kröfuharðasti rukkarinn á fasteignamarkaði. Þetta sagði Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra í svari í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.

Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði ráðherra hvaða tillögur ríkisstjórnin hefði til að bregðast við þeim vanda við framkvæmd 110% leiðarinnar og sértækrar skuldaaðlögunar sem eftirlitsnefnd um framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar hefði bent á í skýrslu sinni.

Þar er meðal annars gagnrýnt að skuldurum sé mismunað eftir því hjá hvaða lánastofnun þeir eru þar sem þær hafi útfært úrræðin á mismunandi hátt.

Svaraði Árni Páll því til að samkeppniseftirlitið hefði komist að þeirri niðurstöðu að ekki mætti binda bankana við eina og sömu lausn og mikilvægt væri að þeir hefðu svigrúm til að bjóða betri kjör.

Þá gerði hann lífeyrissjóðina að sérstöku umtalsefni og gagnrýndi það hversu lítinn hlut þeir ættu að máli í úrlausn á skuldavandanum.

„Hlutur þeirra í úrvinnslu á skuldavanda heimilanna er óþægilega lítill. Það getur ekki verið þannig að lífeyrissjóðir landsins, sem eiga mikið undir því að eiga samstöðu með landsmönnum, séu kröfuharðasti rukkarinn á húsnæðislánamarkaði í dag,“ sagði Árni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka