Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, mælti í dag fyrir þingsályktun um að fela ríkisstjórninni að ráða sérfræðing til að gera úttekt á álitsgerðum matsfyrirtækjanna Moody's, Fitch Ratings og Standard and Poor's um lánshæfi íslenskra fyrirtækja og stofnana fyrir og eftir hrun íslenska fjármálakerfisins í október 2008.
„Það hefur verið almenn umræða um að þessi matsfyrirtæki hafi ekki verið með raunhæft mat, eins og á daginn hefur komið,“ segir Sigríður. „Líka hefur verið rætt um að þau séu ekki hlutlaus, að matið verði ankannalegt því að það er verið að meta þá sem fjármagna starfsemi matsfyrirtækjanna. Það væri eðlilegt að þessu væri fundinn einhver annar farvegur. Lánastofnanir fengu gæðastimpil frá þessum fyrirtækjum, sem reyndist svo ekki halda og eftir á hafa þau blandað sér í pólitík.“
Sigríður segir að afskipti matsfyrirtækjanna af Icesave-deilunni séu dæmi um það. Einnig hafa þau verið að blanda sér í afskriftir skulda Grikkja.
„Þannig að þetta hefur ekki bara efnahagsleg áhrif fyrir almenning í þeim ríkjum þar sem þessi fyrirtæki starfa, heldur hefur þetta líka áhrif á pólitíska stefnumótun. Auðvitað eiga stjórnvöld að reka efnahagsstefnu sem er sjálfbær og trúverðug en þessi matsfyrirtæki blanda sér beinlínis í pólitíska ákvarðanatöku. Þetta er umhugsunarefni og því tel ég mikilvægt að við fáum einhvern til að fara yfir á hverju mat á lánshæfi okkar var byggt fyrir og eftir hrun.“
„Það skiptir auðvitað máli fyrir Ísland að við getum fengið trúverðugt mat á lánshæfi okkar,“ segir Sigríður. „En reynslan hefur kennt okkur að óraunhæft mat er dýrkeypt.“
Flutningsmenn tillögunnar eru auk Sigríðar, Lilja Mósesdóttir, Davíð Stefánsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Lúðvík Geirsson, Magnús Orri Schram og Ólína Þorvarðardóttir.