Lögreglustjórinn á Hvolsvelli og almannavarnanefnd umdæmisins fengu í dag nýsköpunarverðlaun í opinberum rekstri fyrir árið 2011. Fengu þau verðlaunin vegna skipulags rýmingar vegna jökulhlaupa sem fylgja eldgosum í Kötlu og Eyjafjallajökli. Þá fengu þrjár aðrar stofnanir viðurkenningar.
Var það Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sem afhenti verðlaunin í opinberum rekstri á ráðstefnu sem bar yfirskriftina „Nýsköpun í opinberum rekstri – Nýjar lausnir við nýjum áskorunum“ á Grand hóteli í Reykjavík.
Fól verðlaunaverkefnið í sér að gera viðbúnaðar- og rýmingaráætlun vegna yfirvofandi náttúruváar af völdum eldsumbrota í Kötlu og Eyjafjallajökli í samstarfi íbúa og almannavarnayfirvalda.
Í umsögn dómnefndar segir m.a. eftirfarandi: „Notuð var ný og árangursrík aðferð til að leita samráðs við borgarana, fá hugmyndir og byggja upp samvinnu við þá til að bregðast við yfirvofandi umhverfisvá. Það skilaði sér í aukinni samábyrgð og valdeflingu borgaranna við að leysa vandasamt og flókið verkefni. Verkefnið mætti þörfum skilgreinds hóps sem skilaði góðum árangri þegar á reyndi og skipti þá miklu máli.“
Auk þess fengu Landmælingar Íslands, Blindrabókasafn Íslands og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu viðurkenningar fyrir nýsköpunarverkefni.
Nánari upplýsingar um nýsköpunarverðlaunin.