„Skattastefna ríkisstjórnarinnar er í rauninni að stýra málunum í þessa átt. Þegar fólk sér stóran hluta af vinnunni sinni hverfa í ríkispyttinn hlýtur þetta að verða raunin.“
Þetta segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fulltrúi í fjárlaganefnd Alþingis, um þá niðurstöðu rannsóknar ríkisskattstjóra, ASÍ og SA að 12% starfsmanna lítilla og meðalstórra fyrirtækja séu í svartri vinnu. Nema glötuð verðmæti vegna þessa ríflega 13,8 milljörðum króna, að því er fram kom á blaðamannafundi í gær þar sem kynntar voru niðurstöður rannsóknarinnar.
„Ég held að allir séu reiðubúnir að borga eðlilega og sanngjarna skatta en ríkisstjórnin er búin að keyra þetta úr öllu hófi,“ segir Höskuldur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag og telur bæði, að skattkerfið hafi tekið sífelldum breytingum á skömmum tíma og miklar skattahækkanir átt sér stað.