Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir rangt að ráðuneyti hans tefji vinnu vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu (ESB). ESB hafi sett opnunarskilyrði við opnun landbúnaðarkaflans en ekki Ísland og því megi segja að ESB hafi tafið viðræðurnar.
Björgvin G. Sigurðsson, alþingismaður, sagði á opnum fundi atvinnuveganefndar í morgun að það sé ljóst að meginþungi viðræðna um umsókn að Evrópusambandinu snúist um málaflokka sem heyri undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra auk peningamálastjórnunar sem heyri undir annað ráðuneyti.
Hann sagði að því sé haldið fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafi hægt á samningaferlinu og ljóst að viðræður um þyngstu kaflana, sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál, muni ekki hefjast á þessu ári. Þar með hafi hægt á viðræðuferlinu og því verði ekki lokið fyrr en á næsta kjörtímabili. Björgvin bað ráðherrann að skýra stöðuna.
Jón sagði „alveg fullkomlega rangt“ að ráðuneyti sitt hafi tafið viðræðunar, síður en svo. Meira að segja hafi ráðuneytið fengið hrós fyrir góða og öfluga undirbúningsvinnu.
Ráðherrann sagði að búið væri að opna landbúnaðarkaflann og þar hafi verið sett opnunarskilyrði. „Það er Evrópusambandið sem setur þau opnunarskilyrði - ekki Ísland,“ sagði Jón. Hann sagði að með setningu skilyrða sé ESB að kalla á meiri vinnu. Það megi því segja að ESB sé að tefja viðræðurnar.
Jón ráðherra benti á að einnig hafi verið settir opnunarskilmálar við byggðakaflann sambærilegir við þá sem settir voru við landbúnaðarkaflann.
„Sjávarútvegskaflinn hefur ekki enn verið opnaður og hann er enn í vinnu, ekki síst af hálfu Evrópusambandsins. Þeir eru ekki búnir að ljúka sinni vinnu sem tengist þeirri rýnivinnu,“ sagði Jón. Hann sagði enn fremur að vinna Íslands við þetta sé í sjálfu sér góð en segja mætti að vinna ESB sé ekki með sama hætti góð.
Magnús Orri Schram, alþingismaður í atvinnuveganefnd, spurði ráðherrann varðandi ESB-umsóknina hvort ekki sé rétt að ESB setji það skilyrði að fyrir liggi áætlun um stofnanabreytingar hér ef til aðildar Íslands kemur en ekki skilyrði um aðlögun áður en til aðildar kemur.
Jón sagði að verið sé að fara ofan í hvað orðalag ESB þýði. „Við höfum lýst því afdráttarlaust yfir að það verði ekki gerðar neinar breytingar á lögum eða stofnanastrúktúr á Íslandi meðan á aðlögun stendur,“ sagði Jón. Hann sagði marga hafa sagt að Íslendingar hefðu átt að leggja fram kröfur sínar gagnvart ESB með beinum hætti.
„Við vitum að við ætlum ekki að framselja hér okkar fiskveiðiauðlindir til Evrópusambandsins. Það liggur alveg fyrir. Kannski hefðum við átt að krefjast þess að fá svar beint frá Evrópusambandinu: Eruð þið reiðubúnir að fallast á það eða ekki? Ég held að enginn Íslendingur vilji í sjálfu sér semja frá sér sjávarútvegsauðlindina,“ sagði Jón.