Samgöngustjóri Reykjavíkurborgar segir að bílum á nagladekkjum hafi fækkað um meira en helming á 10 árum. Þriðjungur bíla aki nú á nöglum (32%). Þá segir að það sé athyglisvert að umferðarslysum að vetrarlagi hafi smám saman fækkað á þessum tíma, þótt frávik séu þar á á einstökum árum.
„Í Reykjavík eru nagladekk óþörf, en mikilvægt að vera á góðum dekkjum sem ætluð eru til vetraraksturs. Ökumenn eru hvattir til að aka varlega og eftir aðstæðum hverju sinni. Minnt er á að visthæfir bílar fá ekki frítt í stæði séu þeir á nagladekkjum,“ segir í tilkynningu frá Ólafi Bjarnasyni, samgöngustjóra borgarinnar.
Þá segir að fjölmargt hafi hjálpað til við að fækka nagladekkjum í borginni. Reykjavíkurborg hafi hvatt íbúa til að velja önnur dekk á borgarbílinn því hægt sé að komast örugglega um borgina með öðru móti.
„Gatnaþjónustan er góð, vetur mildur, önnur vetrardekk betri kostur og flestir vilja leggja sitt af mörkum til að draga úr svifryki og hávaðamengun og minnka slit á götum. Æskilegt markmið er að fækka bílum á nagladekkjum um helming frá því sem nú er,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að í Noregi hafi markvisst verið unnið að minnkun nagladekkjanotkunar í stærri borgum landsins þar sem vetrarveðurfar sé á margan hátt svipað og í Reykjavík.
„Í Osló, Bergen og Þrándheimi er hlutfall ökutækja á nagladekkjum nú orðið milli 15 og 20%. Í þessum borgum hefur minni nagladekkjanotkun ekki leitt til fjölgunar umferðarslysa,“ segir í tilkynningu.