Svavar sýknaður

Svavar Halldórsson fréttamaður.
Svavar Halldórsson fréttamaður. mbl.is/G.Rúnar

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað fréttamanninn Svavar Halldórsson af kröfum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem sakaði Svavar um meiðyrði. Er Jóni Ásgeiri gert að greiða Svavari, sem starfar sem fréttamaður hjá RÚV, eina milljón kr. í málskostnað.

Jón Ásgeir krafðist þess að ummæli sem birtust í aðalfréttatíma ríkissjónvarpsins 6. desember sl. yrði dæmd dauð og ómerk. Jón Ásgeir krafðist þess að Svavar yrði dæmdur til refsingar og vegna ummælanna og birtingar þeirra. Auk þess að honum yrði gert að greiða 3 milljónir kr. í miskabætur.

Vildi Jón Ásgeir að ummælin „Jón Ásgeir Jóhannesson“ og „þremenninganna“ yrðu dæmd dauð og ómerk, en þau komu fram í eftirfarandi texta, sem birtur er í dómi héraðsdóms:

„Það hafa yfirvöld hér á landi líka gert, eins og við höfum áður greint frá, og þau telja sig komin á slóð peninganna enda hafa þau undir höndum gögn sem benda til þess að þeir Pálmi, Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason, hafi skipulagt Panama-fléttuna fyrirfram. Það er að koma peningunum út til Panama en síðan hafi féð ratað aftur eftir krókaleiðum í vasa þremenninganna.“

Fram kemur í dómi héraðsdóms að Svavar hafi lýst því yfir að fréttin byggist á heimildum, munnlegum og skriflegum, sem hann meti trúverðugar.

„Verður ekki lagt á stefnda að færa fram sönnun fyrir þessum ummælum en réttur fréttamanna til að standa vörð um og halda leynd yfir heimildum og heimildarmönnum hefur verið staðfestur í dómsúrlausnum. Þá þykir stefndi hafa sýnt nægilega fram á að hann hafi reynt að ná til stefnanda áður en fréttin var flutt og hefur hann því ekki brotið starfsreglur Ríkisútvarpsins að þessu leyti,“ segir í dómi héraðsdóms.

Þá segir að ekki verði fallist á með Jóni Ásgeiri að hann sé sakaður um refsiverða háttsemi í fréttinni. Skoða verði fréttina í heild sinni en ekki út frá einstökum ummælum.

„Eins og áður sagði ber jafnframt að líta til þess jarðvegs sem ummælin spruttu úr og til nauðsynlegrar umræðu í þjóðfélaginu um orsakir og afleiðingar bankahrunsins og jafnframt hafa í huga að einhverrar ónákvæmni geti gætt þegar fjallað er um flóknar lánveitingar og viðskiptafléttur. Þegar ummælin um stefnanda eru metin í þessu ljósi þykja þau ekki brjóta í bága við ákvæði 234. eða 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940,“ segir Hérðasdómur Reykjaness.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert