Svört vinna gamalt vandamál

Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi.
Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi. mbl.is/Ómar

Hátt hlutfall svartrar atvinnustarfsemi hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum er ekki afleiðing af skattastefnu ríkisstjórnarinnar heldur viðvarandi vandamál. Þetta kom fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi nú fyrir stundu.

Það var Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sem spurði ráðherra út í sláandi tölur um svarta atvinnustarfsemi sem Morgunblaði segir meðal annars frá í dag. Þar kemur fram að tólf prósent starfsmanna lítilla og meðalstórra fyrirtækja séu í svartri vinnu samkvæmt nýrri úttekt ríkisskattstjóra, Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins. Kostnaðurinn fyrir ríkið nemi ríflega 13,8 milljörðum á ári vegna þessa.

Sagði Vigdís þetta sýna hvernig neðanjarðarhagkerfi blómstraði í skattpíningarumhverfi stjórnvalda og spurði hún ráðherra hvort breyta ætti skattkerfinu til þess að menn hefðu ekki hag af því að svíkja undan skatti.

Svaraði fjármálaráðherra að vandamálið væri ekki nýtt af nálinni og virtist ekkert tengt sköttum. Vísaði hann þá í skýrslu starfshóps um umfang skattsvika frá árinu 2004 sem afhent var þáverandi fjármálaráðherra. Meginniðurstöður þeirrar skýrslu hafi verið að tekjutap ríkis og sveitarfélaga gæti verið á bilinu 8,5-11,5 prósent af heildartekjum þeirra. Því sé umfang svartrar atvinnustarfsemi um það bil óbreytt miðað við skýrsluna.

Sakað Vigdís þá Steingrím um að stinga höfðinu í sandinn. Hún hefði verið að spyrja um nútíðina og framtíðina en ekki fortíðina.

„Vandamálið er nákvæmlega eins grafalvarlegt þó við höfum sterkar vísbendingar að það hafi verið af svipaðri stærðargráðu hér á árum áður. Þar með er náttúrulega hrunin röksemdin fyrir því að þessar vísbendingar séu til marks um stóraukna veltu í svörtu hagkerfi og séu bein afleiðing af skattabreytingum undanfarin misseri. Þannig er það ekki,“ svaraði fjármálaráðherra.

Varaði hann við því að málin væru rædd á þennan hátt þar sem þau gæfu hálfgildings réttlætingu fyrir því að svíkja undan skatti. Heldur ætti að samræmast um að fordæma það. Skattahlutföll væru engin afsökun fyrir því að fara ekki að lögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert