Óskar Ágústsson, starfsmaður Sorphirðunnar, var í gær kvaddur með virktum af borgarstjóra og samstarfsmönnum eftir 53 ára farsælt starf fyrir Reykjavíkurborg í kveðjuhófi sem haldið var á Höfðatorgi.
Óskar hóf störf hjá borginni á árinu 1958 en hann var þá 17 ára gamall og hafði þá unnið fyrir sér við höfnina í nokkur ár. Hann man tímana tvenna í sorphirðunni en þegar hann byrjaði að vinna hjá Reykjavíkurborg var aska í tunnunum því fólk brenndi þá jafnan heimilissorpinu og setti öskuna í tunnur. Af því er orðið öskutunna tilkomið. „Það var frekar óþrifaleg vinna. Maður var allur sótsvartur eftir daginn,“ sagði Óskar, að því er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar.
Borgarstjóri hélt ræðu þar sem hann fór yfir feril Óskars hjá borginni en hann byrjaði sem trillari en var síðan bílstjóri og flokksstjóri í fjölmörg ár.
Óskar hefur fylgst með sorphirðunni þróast í öll þessi ár og sagði flest hafa breyst til batnaðar. Hann hefur einnig séð borgina þenjast út og fylgst með uppbyggingu heilu hverfanna. „Ég man þá tíð þegar aðeins voru nokkur heimili í Fossvogi sem sækja þurfti sorp til. Sorpið var heldur ekki í plastpokum í gamla daga heldur var það sett laust í tunnurnar eða í bréfpokum. Og það hefur aukist mikið,“ sagði hann.