Harpa ekki partíhúsnæði

Ráðstefnu- og tónlistarhúsið Harpan við Reykjavíkurhöfn
Ráðstefnu- og tónlistarhúsið Harpan við Reykjavíkurhöfn mbl.is/Júlíus

Mjög verður dregið úr veisluhaldi og þá sérstaklega árshátíðum í tónlistarhúsinu Hörpu. Að sögn Þórunnar Sigurðardóttur, stjórnarformanns Agos, rekstrarfélags Hörpu, er húsið ekki gert fyrir mikið næturlíf. Tryggja þurfi að starfsemin samræmist tilgangi hússins.

„Það er ekki þannig að það sé búið að stoppa allt veisluhald en við erum að skrúfa þetta niður. Við erum að reyna að átta okkur á hvað rúmast saman í húsinu þannig að við höfum dregið mjög úr þessum stóru árshátíðum samhliða öðrum viðburðum. Það þarf bara að stýra þessu betur. Þetta er ekki partíhúsnæði,“ segir Þórunn.

Hún segir Hörpu ekki gerða fyrir mikið næturlíf. Frekar dimmt sé í húsinu, miklar tröppur og steinfletir og mikla gæslu þurfi ef fólk sé þar fram eftir nóttu.

„Við viljum að þetta sé í góðu lagi og að öll starfsemin hér samræmist tilganginum með húsinu. Þetta er sameiginlegt mat manna. Húsið er of opið. Þó salirnir séu hljóðeinangraðir þá þarf ekkert annað en að opna hurð og þá fer hljóð á milli. Það segir sig sjálft að það er ekki ásættanlegt,“ segir hún.

Þannig hafi það til dæmis gerst að tónlist frá árshátíð hafi truflað tónleika Bjarkar í húsinu á dögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert