Risageitin Gävle hefur verið reist við verslun IKEA við Kauptún í Garðabæ. Síðustu jól var geitin brennd og hlaut þar sömu örlög og kollegar hennar víða um heim, en víða gera menn sér það til gamans að bera eld að geitunum.
„Við erum með sólarhringsgæslu og myndavélum er beint að geitinni. Einnig eru menn viðbúnir með slökkvitæki ef eitthvað ber út af,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA. „En auðvitað vonumst við til þess að hún fái að standa.“
Að sögn Þórarins er geitin nokkuð stærri í ár en í fyrra. Þá var hún 4,5 metrar á hæð, en er núna 6,2 metrar og vegur rúmlega tvö tonn.
Hún var smíðuð hér á landi, úr íslenskum hálmi, og að sögn Þórarins er gert ráð fyrir að hún þoli íslenskt vetrarveður og annað daglegt hnjask.
Hægt er að fylgjast með geitinni á Facebooksíðu hennar.